ÖFLUG MANNFLÓRA Í FSu

Í byrjun nóvember kom Chanel Björk Sturludóttir í heimsókn í FSu en hún hefur getið sér gott orð fyrir umfjöllun sína í útvarpi og sjónvarpi um fjölmenningu og fordóma í íslensku samfélagi. Þáttagerð hennar bar nafnið MANNFLÓRAN og jafnhliða því heldur hún úti heimasíðu með sama heiti. Chanel býður upp á fræðsluerindi og ráðgjöf fyrir skóla og stofnanir sem vilja kynna sér birtingarmyndir fordóma og rasisma í þeim tilgangi að skapa jafnara og betra samfélagi.

Í FSu hitti hún og vann með fyrsta árs nemendum fimm námshópa í áfanganum ERGÓ sem er lífsleikniáfangi skólans. Hún hélt í byrjun hverrar kennslustundar erindi með myndum og texta þar sem meðal annars var bent á niðurstöður rannsókna sem sýna að fólk af erlendum uppruna stendur höllum fæti í íslensku samfélagi. Ísland er í grunninn einsleitt samfélag sem á síðustu áratugum hefur breyst töluvert með auknum fólksflutningi til landsins og auknu flæði Íslendinga um heiminn.

Að loknu erindi Chanelar var farið í gagnkvæmar umræður um þessar miklu samfélagsbreytingar og hvernig þær birtast og leitað leiða til að upplýsa fólk og draga úr fordómum. Nemendur deildu skoðunum sínum og rökræddu og komust að niðurstöðu eins og gerist og gengur í upplýstri og fordómalausri umræðu. Slík umræða leiðir til jafnaðar og betra samfélags þar sem fólk vinnur saman frekar en að deila. Vitnisburður nemenda fyrir þessu verkefni var afar jákvæður og stóðu þau sig sérlega vel í því að bæta mannflóruna. Skólinn þakkar Chanel Björk kærlega fyrir hennar framlag.

jöz.