Aðalfundur 2019

Hollvarðasamtök Fjölbrautaskóla Suðurlands

Aðalfundur 25. maí 2019

Mætir úr stjórn: Hjörtur, Andrea og Sigþrúður. Anna boðaði forföll

Aðrir fundarmenn: Örlygur Karlsson, Kristín Traustadóttir, Helgi Hermannsson og Nanna Þorláksdóttir

  1. Hjörtur setti fund og stakk upp á Kristínu sem fundarstjóra og undirritaðri sem ritara. Samþykkt samhljóða.
  2. Ritari las fundargerð siðasta aðalfundar og var hún samþykkt.
  3. Hjörtur flutti skýrslu stjórnar. Þar var sagt frá fundahöldum stjórnar,  námssstyrkjum vegna framúrskarandi námsárangurs, fréttabréfum, samtökunum á samfélagsmiðlum og heimasíðu skólans og sagt frá innheimtum félagsgjalda. Einnig kom fram í skýrslunni að hægt hafi gengið undanfarið við skráningu á sögu skólans með viðtölum við fyrrum starfsmenn. Sagt var frá fjölda félagsmanna og því velt upp hvernig auka megi tengslin við fyrrverandi nemendur og koma skipulagi á samband við afmælisárganga.  Skýrsla stjórnar samþykkt samhljóða.
  4. Reikningar lagðir fram og kynntir af formanni í fjarveru gjaldkera – sem bað fyrir kveðjur á fundinn.  Reikningar samþykktir samhljóða.
  5. Endurskoðun félagsgjalda. Samþykkt eftir nokkrar umræður að halda sömu upphæð fyrir einstaklinga, kr. 1000 en hækka framlög fyrirtækja upp í kr. 5000 úr. kr. 3700.  Helgi stingur upp á að fyrrum nemendum, t.d. 10 ára stúdentum skuli sent fallegt bréf til að reyna að lokka þá inn í samtökin, en lélegar heimtur hafa verið undanfarin ár.
  6. Kosningar.  Hjörtur hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér aftur til formennsku í samtökunum. Örlygur gefur kost á sér og er kjörinn með lófataki. Anna gjaldkeri og Sigþrúður ritari gefa báðar kost á sér áfram og hljóta sömuleiðis ,,rússneska“ kosningu. Andrea situr áfram sem fulltrúi starfsfólks og Helgi sem starfsmaður.  Skoðunarmenn reikninga verða áfram þeir Gunnar Bragi Þorsteinsson og Ásmundur Sverrir Pálsson. Í tilefni af þessum þáttaskilum í sögu samtakanna kastar Hjörtur fram eftirfarandi vísu:

Sólin í áföngum sígur til viðar

á síðdegi ævinnar uppskerustund.

Stundin er komin að stíga til hliðar

Starfslok og amen við aðalfund.

 

 

  1. Áfram rætt um hvaða aðferðum skuli beitt til að ná til brottfarenda og á hvaða tíma sé best að ,,ná þeim“ . Talin góð hugmynd að senda einhvers konar bréf og þá ekki fyrr en 10 árum eftir útskrift.  E.t.v. gæti skólinn sent bréf en þó þyrfti að athuga það vel út frá persónuverndarlögum.
  2. Rætt um að ganga í það að safna fleiri fyrirtækjum. Fundarmenn sammála um að liðir 7 og 8 séu verðug verkefni haustsins fyrir nýja stjórn!
  3. Rætt um viðtölin vegna sögu skólans. Viðtal við Örlyg á döfinni og einnig talað um að ná til Ásu Ingólfs og Ragnheiði Ísaksdóttur, en þær eiga báðar mjög langan starfstíma að baki við skólann.

10.Umræður um kór FSu sem ekki hefur verið starfandi sl. þrjár annir. Undirrituð lagði fram tillögu að ályktun:

 

Aðalfundur Hollvarðasamtaka Fjölbrautaskóla Suðurlands haldinn í skólanum 25. maí 2019, lýsir yfir vonbrigðum með það að kórstarf skuli ekki lengur vera hluti af öflugu félagslífi skólans. 

Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands var frá stofnun skólans ein af skrautfjöðrum hans og mikilvægur þáttur í tónlistarreynslu fjölmargra listamanna sem frá skólanum hafa útskrifast.  Söngur kórsins við brautskráningar setti ávallt hátíðlegan blæ á þær samkomur og tónleikar kórsins tilhlökkunarefni ár hvert  Kórmeðlimir fóru reynslunni ríkari í sumarleyfi á hverju vori enda stjórnendur kórsins í gegnum tíðina metnaðarfullir og faglegir. Utanlandsferðir kórsins eru líka ógleymanlegar þeim sem þátt tóku og sú vinna sem liggur að baki slíkum ferðum við æfingar og fjáraflanir ákaflega þroskandi fyrir ungt fólk.

Fundurinn skorar á stjórn skólans að taka til endurskoðunar þá ákvörðun að fella kórstarfið niður, athuga hvort ekki sé grundvöllur til að hefja aftur til vegs og virðingar það mikilvæga uppeldis- og menningarstarf sem kórsöngur er.  Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands er menningarstofnun sem ekki má týnast enda ein sú elsta í sögu skólans.

Ályktunin samþykkt og undirrituð tekur að sér að senda hana skólastjórnendum.

 

11. Örlylgur biður um orðið og þakkar það traust sem honum er sýnt með kosningu í formannsembættið. Jafnframt færir hann Hirti þakkir fyrir öll hans störf í þágu skólans frá fyrstu tíð, fyrst sem formaður skólanefndar og síðar sem formaður Hollvarðasamtakanna.  Hjörtur þakkar sömuleiðis fyrir liðnar stundir og rifjar í nokkrum orðum upp gamla tíma og þá erfiðleika sem mættu framkvæmdaraðilunum svo oft í upphafi.  Nanna, sem var fulltrúi starfsmanna um árabil, þakkar einnig fyrir gott samstarf og góðar stundir.

12.Rætt um Facebook-síðu samtakanna.

13.Örlygur sagði frá því að hægt gengi með skönnun á ljósmyndum. Hann vill fund sem fyrst með stjórnendum varðandi framhald þeirrar vinnu, skráningu og hvað af myndum sem eru t.d. á veggjum skólans er til í tölvutæku formi.

14.Að lokum minntist Örlygur á það að fyrr en síðar þyrfti að fara að huga að 40 ára afmæli skólans árið 2021.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið um kl. 17:00