Aðalfundur 2014

Aðalfundur Hollvarðasamtaka Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 2014.

Haldinn 19.desember að brautskráningu lokinni kl. 16:00

Mættir:  Stjórnarmenn ásamt 3 öðrum fundargestum

  1. Hörtur formaður setti fund og bað Örlyg Karlsson að stýra fundi og undirritaða að skrá fundargerð. Samþykkt.
  2. Örlygur tók við fundarstjórn og bað undirritaða að lesa fundargerð síðasta aðalfundar. Hún var síðan samþykkt samhljóða.
  3. Hjörtur flutti skýrslu stjórnar fyrir árið 2013. Þar skýrði hann frá fundarhöldum stjórnar, verðlaunahöfum við brautskráningar, útgáfu fréttabréfs, innheimtu félagsgjalda og uppfærslu félagatals. Þá fór hann stuttlega yfir fjármálin og sagði frá heimsíðu skólans og staðsetningu samtakanna á henni.  Skýrði hann frá kaupum á myndaskanna og sagði frá aðdraganda Þórsþings.   Skýrsla formanns samþykkt samhljóða.
  4. Anna gjaldkeri lagði fram reikninga ársins 2013. Hún skýrði frá vandkvæðum sem upp hafa komið þegar hollverðir hafa viljað greiða kröfur fyrri ára. Helgi tók að sér að hafa sambandi við bankann vegna þessa.  Nokkrar umræður um reikningana, örfáar athugasemdir en síðan voru þeir samþykktir samhljóða.
  5. Árgjald. Ákveðið að halda því í sömu upphæð og verið hefur en athuga með hækkun árið 2015. Frekari umræðu frestað til aðalfundar 2015.
  6. Stjórnarkjör. Stjórn gefur öll kost á sér til endurkjörs og  komu engin mótframboð. Stjórnina skipa því áfram þau Hjörtur Þórarinsson formaður, Anna Árnadóttir gjaldkeri, Sigþrúður Harðardóttir ritari. Fulltrúi starfsmanna í stjórn er Nanna Þorláksdóttir og sérstakur starfsmaður samtakanna er Helgi Hermannsson.  Skoðunarmenn reikninga verða áfram þeir Gunnar Þorsteinsson og Ásmundur Sverrir Pálsson.
  7. Önnur mál:
  • Rædd hugmynd sem Nanna lagði fram um að við brauskráningu skuli verknámsnemendur líka eiga möguleika á verðlaunum og viðurkenningum fyrir frábæran námsárangur.  Þessari hugmynd hefur þegar verið komið til skólastjórnenda. Fundarmenn mjög jákvæðir fyrir hugmyndinni og nú skal beðið eftir því að skólastjórn finni flöt á því hvernig árangur þeirra skuli mældur í samanburði við bóknámsnemendur.
  • Anna ræddi áhuga sinn á því að fjölga hollvörðum.  Örlygur skýrði frá því átaki sem hann fór í til að afla nýrra hollvarða í kjölfar aðalfundar síðasta árs. Rætt um hvort hægt væri að virkja styrkþega í lið með okkur til að efla samtökin og allir sammála um að reyna frekar að fjölga fólkinu en hækka iðgjöldin mikið.
  • Nanna impraði á því hvort við gætum ekki einhvern veginn hjálpast að við að ná til afmælisárganga. Lítill áhugi virðist vera meðal yngri hópanna og því spurning um að beina athyglinni fyrst og fremst á 20 ára árgöngum og eldri. Hugsanlegt að nýta facebook í þessari vinnu. Ákveðið að huga að þessu fyrir vorið.
  • Örlygur skýrði frá vinnu sinni við að skanna inn myndir úr sögu skólans. Vinnan gengur hægt en sígandi og er unnið og skráð samkvæmt kerfi frá Hérðasskjalasafni Árnesinga. Búið er að skanna ríflega 2000 myndir.
  • Fleira ekki til umræðu.

Fundarstjóri og formaður þökkuðu góðan fund og var honum slitið kl. 17:15

Sigþrúður Harðardóttir ritari