Aðalfundur 2013

Aðalfundur 24. maí 2013    Fundargerð.  

Aðalfundur Hollvarðasamtaka Fjölbrautaskóla Suðurlands 24.maí 2013 kl. 16:30 

Mættir: Hjörtur Þórarinsson formaður, Anna Árnadóttir gjaldkeri, Örlygur Karlsson, Sigþrúður Harðardóttir og Helgi Hermannsson.

Hjörtur bauð fundarmenn velkomna, setti fund og minntist með nokkrum orðum Þórs Vigfússonar fyrrum skólameistara sem lést þann 5.maí sl. Þá var stungið upp á Örlygi sem fundarstjóra og undirritaðri sem fundarritara. Var það samþykkt samhljóða og gengið til dagskrár. 

1. Formaður las fundargerð síðasta aðalfundar og skýrslu stjórnar fyrir árið 2012. Umræður um skýrslu stjórnar. Hún síðan samþykkt samhljóða. 

2. Gjaldkeri lagði fram reikninga ársins 2012 og skýrði þá. Nokkrar umræður um reikninga og ákveðna útgjaldaliði. Hún síðan samþykkt samhljóða. 

3. Umræður um árgjald. Ákveðið að hafa það óbreytt næsta ár; kr. 1000 fyrir einstaklinga og kr. 3700 fyrir fyrirtæki. 

4. Kosningar. Anna gjaldkeri og Hjörtur formaður gefa kost á sér til áframhaldandi starfa. Önnur framboð komu ekki og voru þau því einróma kjörin. Nanna Þorláksdóttir fulltrúi starfsmanna og Helgi Hermannsson sérstakur starfsmaður samtakanna eru einnig tilbúin að starfa áfram og var það líka samþykkt. Sigurður Eyþórsson ritari gefur ekki kost á sér áfram. Stungið er upp undirritaðri sem ritara Hollvarðasamtakanna. Samþykkt samhljóða. Gunnar Þorsteinsson og Ásmundur Sverrir Pálsson verða áfram skoðunarmenn reikninga.

 5. Önnur mál. 
a) Rædd hugmynd frá Sigurði Eyþórssyni um að haldið skuli málþing til að heiðra minningu fræði- og skólamannsins Þórs Vigfússonar. Málþingið yrði haldið í nafni Hollvarðasamtaka Fsu. Fundarmönnum leist mjög vel á hugmyndina. Nokkrar umræður um tímasetningu. Október og febrúar helst nefndir. Hugsanlega of stuttur fyrirvari að halda slíkt í október. Þann 1.febrúar nk. eru 20 ár liðin frá því Þór hætti sem skólameistari Fjölbrautaskólans. Þá dagsetningu ber upp á laugardag og því hugsanlega góður dagur. Ákveðið að vera í sambandi við Hildi Hákonardóttur, ekkju Þórs, vegna tímasetningar og annarra hluta varðandi framkvæmd. Stjórnin mun hittast þegar rætt hefur verið við Hildi og mun einnig nota sumarið til að huga að efni og fyrirlesurum.

 b) Helgi Hermannsson tölvumaður Hollvarðasamtakanna kynnti nýja síðu samtakanna á Facebook. Þar sem ekki er lengur hægt að senda árlegt fréttabréf samtakanna gegnum bankakerfið með gíróseðlum er ætlunin að reyna að ná til sem flestra í gegnum þessa síðu. Talsverðar umræður um facebook, tölvupóst og aðrar leiðir til að ná til félagsmanna, bæði þeirra sem þegar eru í samtökunum og nýrra. Ákveðið að vera dugleg og hjálpast að við að ná fólki inn gegnum facebook síðuna en einnig að birta fréttir á heimasíðu skólans, dreifa því við útskrift og e.t.v. birta í héraðsfréttablöðunum. Einnig skal stefnt að því að hafa upp á netföngum þeirra sem ekki eru á fb. Nokkur umræða um afmælisárganga og hvernig ná megi til þeirra og byggja upp stemningu fyrir því að halda upp á útskriftarafmæli. Gjaldkeri og ritari eiga 30 ára stúdentsafmæli í desember nk. og ætla að freista þess að búa til hefð. 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 17:25 

Sigþrúður Harðardóttir fundarritari. 

Skýrsla stjórnar vegna ársins 2012 

Í stjórn Hollvarðasamtaka Fjölbrautaskólans, sem kosin var á aðalfundinum 18.maí 2012. eru Hjörtur Þórarinsson, formaður, Anna S. Árnadóttir gjaldkeri, Sigurður Eyþórsson ritari Nanna Þorláksd. fulltrúi starfsmanna skólans og fulltrúi úr nemendaráði, Markús Árni Vernharðsson en næsta ár verður það Rakel Lind Úlfhéðinsdóttir og sérstakur starfsmaður Helgi Hermannsson.

Skráðir stjórnar- og vinnufundir voru 4 á árinu. Í maí var aðalfundurinn undirbúinn. Reikningar lágu fyrir og afgreiddir af hálfu skoðunarmanna. Útsending gíróseðla, þátttaka í sönglagakeppni og útskriftarmál.   

Skólameistaraskipti fóru fram 1. ágúst. Olga Lísa Garðarsdóttir tók við farsælu starf af Örlygi Karlssyni. Við tókum þátt í þeirri athöfn.

Verðlaunaveitingar við brautskráningu: Námsstyrkir fyrir árið 2012 fóru til 3 nemenda og voru 75.000, kr. á hvern.   Þá var til umræðu við skólastjórn að veita viðurkenningu á fleiri sviðum þegar um væri að ræða framúrskarandi nemendur sem eru að ljúka námi á öðrum brautum en þeim sem lokið er með stúdentsprófi. Veitt voru 50.000, kr. verðlaun í sönglagakeppni Fyrirliggjandi samþykkt er að heimila námsbókarstyrk í sérstökum tilfellum frá Hollvarðasamtökum FSu. fyrir einstaka nemendur FSu, sem lenda í algjörum vandræðum með námsbókakaup. 

Fréttabréf nr. 10 og félagsgjald 2012 Sigurður Eyþórsson hefur annast uppsetningu og frágang á fréttabréfinu allt frá upphafi. Þetta er sá tengiliður sem við leggjum mikla áherslu á að berist til allra félagsmanna.  

Innheimta félagsgjalds 2012 fór fram í okt. Helgi Hermannsson afgreiddi innheimtuferilinn. Þar var greint frá aðalfundinum, styrkveitingum ársins og uppfærslu heimasíðunnar. Árgjaldið er nú kr 1.000, kr. fyrir einstaklinga en 3.700 kr. hjá fyrirtækjum og félagasamtökum. Félagsgjöldin voru hækkuð um 100 kr.  árið 2010 til að mæta póstkostnaði. Viðtakandi greiðir heimsendan gíróseðil eða samsvarandi kröfu í heimabankanum sínum. 

 Uppfærsla félagatals til réttrar stöðu er gerð í mars ár hvert. Hinn 30. okt 2012 var félagafjöldi 339 einstaklingar og 39 lögaðilar alls 478. Auk þess fengu 162 nemendur sem útskrifuðust 2011 og 18 nýir starfsmenn. boð um aðild Alls útsendar kröfur voru 658 vegna ársins 2012 

Yfirlit ársreiknings 2012 Tekjur ársins 2012, framlög 433.900, kr. vaxtatekjur nettó 71.924,-kr. alls 505,824 kr. Gjöld 235.473,-kr.hagn. 270.351 kr. Eignir í árslok 1.917.878-, kr.  

Heimasíða skólans. Undir heimasíðu skólans fsu.is er vefur samtakanna og hefur Helgi Hermannsson kennari við skólann séð um þá síðu í samráði við stjórn. Skoða má síðuna undir liðnum “Samstarf” á fsu.is. en slóðin er http://fsu.is/hvfsu/ Helgi hefur einnig tekið að sér að halda utan um félagaskrá samtakanna og viðhald hennar. Helga eru færðar miklar þakkir fyrir þau tengsl sem hann hefur “netfest” milli okkar og hins mikla fjölda sem styrkir okkur í þögn en heldur tryggð við skólann sinn. 

Námsstyrkir við skólaslit. Samþykkt var að veita námsstyrk til þess eða þeirra nemenda er fremst/ir stæði/u í námsafköstum meðal jafningja sinna við lokapróf frá skólanum á hvorri önn. Á 11 árum hafa 38 nemendur hlotið alls 1.875.000, kr.  Á vorönn 2012 fékk Sara Rós Kolodziej 75.000 kr. á haustönn 2012 fengu Anna Rut Arnardóttir og Nína Guðrún Guðjónsdóttir 75.000 kr. hvor Formaður fylgdi styrkveitingu eftir með eftirfarandi áherslu. Markmið samtakanna er annars vegar að auka tengsl FSu við fyrrum nemendur sína og aðra þá sem bera hag skólans fyrir brjósti, hins vegar að styrkja og efla skólann eftir fremst megni, fjárhagslega eða á annan hátt, en einnig og ekki síst að rækta og alefla samband félagsfólks sín á milli. Við brautskráningu fengu allir nemendur penna með eftirfarandi áritun. Mundu FSu WWW.fsu.is. 

Tengsl við árgangahópa var strax tekið fyrir og rætt að hafa samband við 20, 25 og 30 ára árganga af hvorri önn fyrir sig. Við leitum uppi nokkru fyrir skólaslit tengiliði frá þessum árgöngum og minnum þá á þessi tímamót. Enn sem komið er hafa yngstu hóparnir ekki skilað sér. Þess gætir meir hjá þeim eldri að koma við skólaslit. Meðan takmörkuð hefð hefur náð að festast þá geta þessi samtök styrkt þann þátt að eldri árgangar komi á útskriftarhátíðir og láti í ljós ræktarsemi við skólann um leið og þeir nýta sér þann fagnað sem þar verður að hitta gamla skólafélaga. Við skólaslit á vor- haustönn var dreift innritunarbeiðni til gesta. 

Hjörtur Þórarinsson