Aðalfundur 2009

Aðalfundur Hollvarðasamtaka Fjölbrautaskóla Suðurlands

Haldinn í F.Su. 22. maí 2009 kl. 16.30


Þetta gerðist:

Hjörtur Þórarinsson formaður samtakanna setti fund og stakk upp á Sigurði Sigursveinssyni sem fundarstjóra og Sigurði Eyþórssyni sem fundarritara. Ekki voru gerðar athugasemdir við það og tóku þeir til starfa.

 

Gengið var til dagskrár

 
1. Skýrsla stjórnar

Hjörtur Þórarinsson flutti skýrslu stjórnar. Hún lá prentuð fyrir fundinum og fylgir fundargerð.

 
2. Reikningar

Hjörtur Þórarinsson skýrði reikninga samtakanna í fjarveru gjaldkera. Reikningarnir lágu prentaðir fyrir fundinum. Afgangur af rekstri á árinu 2008 voru rúmar 283.000 kr. og eignir eru nú tæpar 1.9 milljónir króna.

 
3. Árgjald

Samþykkt tillaga stjórnar um óbreytt árgjald, 900 kr. til einstaklinga og 3.600 kr. til lögaðila. Árgjaldið hefur verið óbreytt frá stofnun samtakanna.

 
4. Stjórnarkjör

Stjórnin var endurkjörin mótatkvæðalaust þ.e. Hjörtur Þórarinsson formaður, Anna Árnadóttir gjaldkeri og Sigurður Eyþórsson ritari. Sem áður sitja einnig í stjórninni fulltrúar starfsmanna- og nemendafélaga F.Su. Skoðunarmenn voru einnig endurkjörnir þ.e. þeir Gunnar Þorsteinsson og Ásmundur Sverrir Pálsson. 

 
5. Önnur mál

Rætt var um starf samtakanna. E.t.v væri skynsamlegt að leggja sérstaka áherslu á að ná til þeirra þar sem a.m.k. 15 ár eru frá útskrift þar sem það fólk er gjarnan móttækilegra fyrir starfi eins og okkar.

Einnig endurvaktar hugmyndir um menntaþing sem samtökin gætu e.t.v. styrkt. Það væri m.a. haldið til að ræða hugmyndir um eflingu menntastarfs á Suðurlandi og til að tengja betur saman þá sem eru að vinna í þeim málum.

 
Fleira ekki rætt
Fundi slitið
Fundargerð ritaði Sigurður Eyþórsson.
  
 
 
 
Skýrsla stjórnar.

Í stjórn Hollvarðasamtaka Fjölbrautaskólans, sem kosin var á aðalfundinum 23.maí 2008. eru Hjörtur Þórarinsson, formaður, Anna S. Árnadóttir gjaldkeri, Sigurður Eyþórsson ritari Nanna Þorláksd. fulltrúi starfsmanna skólans og Bjarni Rúnarsson fulltrúi úr nemendaráði.

 

Skráðir stjórnar- og vinnufundir voru 5 á árinu. Hinn 6. maí var aðalfundurinn undirbúinn. Reikningar lágu fyrir og afgreiddir af hálfu skoðunarmanna. 
 

Vegna mikilla breytinga á vaxtaumhverfi bankanna var ákveðið að flytja innstæður af hávaxtareikningi sem var með 14.6% ávöxtun yfir í verðtryggðan reikning sem ber allt að 19% ávöxtun. 
 

Verðlaunaveitingar við brautskráningu: Vegna góðrar fjárhagsstöðu var ákveðið að veita hverjum styrkþega kr. 50.000, kr hvort sem þeir verða einn   eða fleiri.    Ennfremur ber að taka upp umræðu við skólastjórn að veita viðurkenningu á fleiri sviðum þegar um er að ræða framúrskarandi nemendur sem eru að ljúka námi á öðrum brautum en þeim sem lokið er með stúdentsprófi.
 

Aðrar styrkveitingar. Rætt var um grundvöll til að veita hinum nýju íþróttaakademíum einhverja viðurkenningu. Sú hugmynd bíður og þarf miklu nánari athugunar við.

 

Samþykkt var sameina skráningu og einfalda gagnagrunnskerfi Hollvarðasamtakanna. undir forystu Helga Hermannssonar.  

 

Innheimta árgjalds 2008 fór fram í okt og þá komu inn þeir sem brautskráðir voru á vor- og haustönn 2007.

 

Fréttabréf   ársins 2008 nr 6 var sent út í október. Þar var greint frá aðalfundinum, styrkveitingum ársins og uppfærslu heimasíðunnar.

 

Heimasíða skólans. Undir heimasíðu skólans fsu.is er vefur samtakanna og hefur Helgi Hermannsson kennari við skólann séð um þá síðu í samráði við stjórn. Skoða má síðuna undir liðnum “Samstarf” á fsu.is. en slóðin er http://fsu.is/hvfsu/ Helgi hefur einnig tekið að sér að halda utan um félagaskrá samtakanna og viðhald hennar. 
Helga eru færðar miklar þakkir fyrir þau tengsl sem hann hefur “netfest” milli okkar og hins mikla fjölda sem styrkir okkur í þögn en heldur tryggð við skólann sinn.

 

Námsstyrkir við skólaslit. Samþykkt var að veita námsstyrk til þess nemenda er fremst stæði í námsafköstum meðal jafningja sinna við lokapróf frá skólanum á hvorri önn. Á 8 árum hafa 22 nemendur hlotið alls 865.000, kr

  • Á vorönn 2008 fengu þær Dröfn Hilmarsdóttir og Inga Berg Gísladóttir 50.000 kr hvor.
  • Á haustönn 2008 fengu Lilja Sigurbjörg Harðardóttir og Matthildur María Guðmundsdóttir 50.000, kr hvor

Formaður fylgdi styrkveitingu eftir með eftirfarandi áherslu. Markmið samtakanna er annars vegar að auka tengsl FSu við fyrrum nemendur sína og aðra þá sem bera hag skólans fyrir brjósti, hins vegar að styrkja og efla skólann eftir fremst megni, fjárhagslega eða á annan hátt, en einnig og ekki síst að rækta og alefla samband félagsfólks sín á milli.

Tengsl við árgangahópa var strax tekið fyrir og rætt að hafa samband við 10 og 20 ára árganga af hvorri önn fyrir sig. Við leitum uppi nokkru fyrir skólaslit tengiliði frá þessum árgöngum og minnum þá á þessi tímamót. Enn sem komið er hafa yngstu hóparnir ekki skilað sér. Þess gætir meir hjá þeim eldri að koma við skólaslit.. Meðan takmörkuð hefð hefur náð að festast þá geta þessi samtök styrkt þann þátt að eldri árgangar komi á útskriftarhátíðir og láti í ljós vott ræktarsemi við skólann um leið og þeir nýta sér þann fagnað sem þar verður að hitta gamla skólafélaga.

Á stjórnarfundi í okt kom Anna með sýnishorn og tilboð í kúlupenna frá fyrirtækinu TANNI. Ýmis verð komu fram, Samþykkt var að láta útbúa áritaða penna með kveðju frá Hollvarðasamtökum skólans til brottfarenda bæði vor og haust. Á sama fundi var kynnt umsókn frá Hollvarðasamtökunum um Menntaverðlaun Suðurlands, er send var til SASS 22. sept. Tilnefningin var: Íþróttakademíur og nám á hestabraut við FSu vegna frumkvöðlastarfs og uppbyggingu íþrótta- og forvarnastarfs í þágu ungs fólks á Suðurlandi.  Þessari umsókn okkar var hafnað.

 

Félagafjöldi. Í árslok var félagafjöldi 615 einstaklingar og 45 lögaðili alls 660. Við útskrift í desember skráðu sig 14 nýir félagar

Í október 2008 fengu 105 nemendur sem útskrifuðust 2007 boð um aðild ásamt fréttabréfi nr 6.   Stjórnin stefnir að því að uppfæra félagatalið til réttrar stöðu í mars ár hvert.        
 

Fimmtíu ára afmæli Helga Hermannssonar var 19. okt Við sendum honum góðar veigar og vinarkveðju.

Óspart aðstoð beitir   öðrum glaður veitir,
hollvörn, hjálp og von.
Fáir framar standa, að finna lausn á vanda,
en Helgi Hermannsson.

 


Anna Árnadóttir átti 50 ára afmæli. 16. des Hjörtur og Nanna gerðu sér leið til hennar daginn eftir og færðu henni eftirfarandi kveðju.

Við Nanna viljum láta í ljós   
ljúfa kveðju Anna mín.
Játningin er jólarós   
á jólaföstu heim til þín.


Tekjur ársins 2008, framlög og vatatekjur 689.165, kr. Gjöld 405.900,-kr hagnaður 283.265,- kr, Eignir 1.881.382,-, kr 
Við skólaslit á haustönn var dreift innritunarbeiðni til gesta

 
Bestu þakkir til allra sem lagt hafa okkur lið í þessu verkefni.
 
Hjörtur Þórarinsson
 
 
Hvers virði eru Hollvarðasamtökin?
 

Hollvarðasamtökin fengu niðurstöður úr hópvinnu kennara – sjálfsmati sem gert var 7. mars þann hluta sem lýtur að þeim.

 

      H 39 Hollvarðasamtökin gera skólann sterkari út á við         Einkunn 5 af 5

·         Tilvist Hollvarðasamtakanna styrkir skólann og ímynd hans út á við

·         Allar fréttir af Hollvarðasamtökunum eru jákvæðar fréttir fyrir skólann

·         Hollvarðasamtökin virkja gamla nemendur til stuðnings við skólannn sinn.

·         Sýnilegri Hollvarðasamtök myndu styrkja skólann út á við.

·         Góður vettvangur fyrir hollvini skólans í samfélaginu.

     H 40 Hollvarðasamtökin styrkja innra starf skólans          Einkunn 3 af 5

·         Hollvarðasamtökin styðja við bakið á efnilegum nemendum með myndarlegum hætti við útskriftir

·         Hollvarðasamtökin geta verið hvatning fyrir góða nemendur.

·         Hollvarðasamtökin mættu koma af stað fjáröflun úti í samfélaginu til stærri verkefna fyrir skólastarfið.

·         Hollvarðasamtökin mættu leggja sitt af mörkum við kaup á dýrum búnaði fyrir skólann.

·         Gætu virkjað gamla nemendur og aflið sem i þeim býr, t.d. með því að fá þá til að koma í skólann og halda fyrirlestra og listsýningar.

      H 41 Hollvarðasamtökin eru nægilega sýnileg                     Einkunn 6 af 5 :)

·         Já 

·         Fréttablað/vefsíða

·         Hjörtur/ljóð

·         Umfjöllun í héraðsfréttablöðum

·         Útskrift