Fundur 2015 05.03

Fundur Foreldraráðs FSu 5. mars 2015

 Mættir: Ásdís, Elín, Kristín, Þorvaldur og fulltrúar nemendafélagsins (þau Arnar, Halldóra Íris og Hergeir).

Fundur settur kl. 16.15 á kaffistofu starfsmanna í FSu.

Dagskrá:

  1. Samræður við fulltrúa nemendafélags FSu.
  2. Önnur mál.

1. Samræður við fulltrúa nemendafélags FSu.

  • Nýafstaðin árshátíð nemenda í Hvíta húsinu á Selfossi. Allt gekk mjög vel . Um 500 nemendur mættu (þar af 170 sem snæddu hátíðarkvöldverð), og telst það afar góð mæting. Ánægja með plötusnúðinn, skemmtiatriði og að ballið skyldi standa til kl. 02.00 um nóttina. Fram­lenging á balltíma (um eina klukkustund) mæltist því vel fyrir og virðist ekki hafa skapað nein vandræði, hvorki á ballinu sjálfu eða eftir. Halldóra sagði frá skýrslugerð eftir böll en það er nýlunda og tengist forvarnaverkefninu ,,Skólinn í okkar höndum“. Þarna er upplýsingum safnað samkvæmt gátlista og skýrslan er lögð fyrir m.a. skólaráð. Góður rómur gerður að þessu og fulltrúar foreldraráðs hvetja skólastjórnendur til að skoða vel að festa balltíma til kl. 02.00 í stað 01.00 og koma þannig til móts við vilja nemenda. Einnig var rætt um hvort endurskoða mætti girðingarmál við ballstaðinn og sjálfsagt að fara betur yfir það með skóla­stjórnendum.
  • Fulltrúar nemendafélagsins ræddu rútumál í tengslum við böll en svo virðist sem nokkuð tap hafi orðið á þeirri þjónustu við nemendur með því skipulagi sem verið hefur. Ákveðið var að leysa það með nýju ferðapöntunarkerfi og koma þannig til móts við þarfir nemenda með sem hagstæðustum hætti, bæði fyrir nemendur og nemendafélagið. Hugmynd nemenda að pöntunarkerfinu (ásamt góðri upplýsingagjöf til nemenda) lítur vel út og fulltrúar foreldraráðs hvöttu fulltrúa nemenda að halda áfram með þróun pöntunarkerfisins.
  • Sagt frá Kátum dögum og Flóafári. Dagskráin var fjölbreytt að vanda. Nemendum var einnig boðið í mat. Allt gekk vel, utan að nokkrir dagskrárliðir féllu niður á Kátum dögum vegna veðurs. Sérstaklega nefnt að Kleinuhringjavagninn hafi slegið í gegn. Rætt um hvort skyn­samlegt sé að hafa Káta daga samhliða Flóafári. Um það eru skiptar skoðanir á meðal nemenda og ekki hefur verið tekin nein ákvörðun að breyta núverandi skipulagi.
  • Nemendur eru að setja upp leikritið ,,Gengið á hælinu“ eftir Júlíus Júlíusson. Sýnt verður í hátíðarsal skólans. Frumsýnt verður í kvöld, 5. mars. Áætlaðar eru nokkrar sýningar bæði í FSu og utan. Um 20 nemendur taka þátt í uppsetningunni. Nemendur fá einingar fyrir þátt­tökuna en fulltrúar nemendafélagsins nefndu að gjarnan mætti setja upp leiklistaráfanga í skólanum.
  • Aðrir viðburðir.
    • Skvísukvöld í Pakkhúsinu 19. mars.
    • Morfískeppni einnig 19. mars en FSu keppir þá við Kvennaskólann (keppnin fer fram í Reykjavík).
    • Skíðaferð er í vinnslu.
    • Blað nemenda ,,Nota bene“ kemur út bráðlega.
    • Hinsegin dagar eru í vinnslu, tengt ,,Skólanum í okkar höndum“ en þeir dagar ganga út á að fagna fjölbreytileikanum. Fulltrúar foreldraráðs hvöttu nemenda til að vinna sérstak­lega með og leysa upp staðalímyndir sem nóg er til af í samfélaginu.
    • Lög Nfsu verða endurskoðuð í vor.
    • Söngvakeppni framhaldsskólanna verður haldin í apríl. o Lokaball ársins verður 15. maí í Hvíta húsinu.
    • Mötuneytismál. Nokkur óánægja er á meðal nemenda með vissa þætti er snúa að rekstri mötuneytisins og virðast vinna gegn hagsmunum þeirra frekar en hitt. Þetta er mál sem fulltrúar foreldraráðs munu taka upp við skólastjórnendur sérstaklega.

Góðar og gagnlegar umræður voru svo í lokin um skólastarfið almennt og um gildi jafningja­fræðslunnar Nóbel.

2. Önnur mál.

Elín sagði frá hvernig mál stæðu varðandi að heimsækja önnur foreldraráð í framhaldsskólum. Formaður boðar til næsta fundar með tölvupósti þegar nær dregur.

Fundi slitið kl. 17.45

Fundargerð ritaði Þorvaldur H. Gunnarsson.