Fundur 2015 22.09

Fundur Foreldraráðs FSu

22. september 2015
Mættir:  Elín, Þorvaldur, Björn, Íva Rut  og Olga Lísa  skólameistari.  Íris Huld boðaði forföll en aðrir ekki.
Fundur settur kl. 16.45 á kaffistofu starfsmanna í FSu.
Dagskrá:
1.  Nýir meðlimir foreldraráðs.
2.  Skólameistari stiklar á stóru.
3.  Af fundi Skólanefndar FSu 21. september 2015.
4.  Önnur mál.

1. Nýir meðlimir foreldraráðs.

Tveir  nýir  fulltrúar  hafa  nú  bæst  við  Foreldraráð  FSu  eftir  kynningarfund  fyrir  foreldra nýnema  sem  haldinn  var  á  dögunum.  Það  eru  þær  Íva  Rut  Viðarsdóttir  og  Íris  Huld Guðmundsdóttir.  Eru  þær  boðnar  innilega  velkomnar  í  hópinn.  Um  leið  þökkum  við fráfarandi  fulltrúa  foreldraráðs,  Kristínu  Magdalenu  Ágústsdóttur,  fyrir  hennar  störf  í ráðinu.

2. Skólameistari stiklar á stóru.

a. Farið yfir fjölda nemenda í skólanum. Heildarfjöldi er um 870, þar af 170 nýnemar.

b. ,,Bragi“, nýtt umsjónarkerfi kynnt. Aðalnýjungin er sú að nýnemar fá beina tengingu inn  í  nemendahópinn.  Aðhaldið  verður  meira  og  kynning  á  kerfum  skólans  verður markvissari.  Von  er  á  að  Bragi  stuðli  að  bekkjar/hópanda. Eldri  nemendur  tengja nýnema við hefðir og aðlaga þá að nýju umhverfi ásamt kennurum.
 
c. Sagt frá töflugerð og vissum vandkvæðum við að hafa ,,Braga“ inni í einum stokkanna átta.  Það var þó leyst  þannig að ,,Bragi“ er munstraður í alla stokkana og hægt er að nýta  miðvikudagsgöt sem hugsuð  eru fyrir nemendur til að halda uppákomur á vegum nemendafélags.  Þá  er  hægt  að  boða  alla  nýnema  á  sameiginlega  fundi,  t.d. forvarnafundi.  Breyting  hefur  orðið  á  lengd  kennslustunda  og  almennt  ljúka  nemendur skóladeginum fyrr en áður, eða kl. 14.50. Breytingin hefur kallað á endurskoðun námsins í hverju fagi, og þá líka  á  námsmati. Rætt um vöntun  á námsmatsstefnu eins og fram kemur í skýrslu ytra mats.
 
d. Nýtt umsjónarkerfi mun leiða til betra aðhalds í mætingum nemenda, sem er hluti af skráningarkerfinu  Inna.  Hver  kennari  mun  bera  meiri  ábyrgð  á  mætingaskráningu. Fjarvistatalningar  fara  nú  fram  á  c.a.  einu  sinni  á  mánuði  og  yfirlit  sent  í  tölvupósti. Brugðist verður fyrr við en áður við slakri skólasókn.
 
e.  Skólameistari  segir  frá  áhyggjum  sínum  af  slakri  ástundun  heimanáms  og  fjarveru vegna utanlandsferða, og þá jafnvel  allt að  tvær  vikur  samfellt. Það getur orðið of langur tími fyrir suma að missa úr  svo langan tíma úr  námi. Á annan tug  slík leyfistilvik hafa komið upp það sem af er. Nokkur umræða var um þetta.
 
f.  Það  styttist  í  valdag.  Nýjar  áherslur  í  valkerfinu  snúast  um  að  nemendur  velja markvissar með hliðsjón af námsframboði skólans til framtíðar.
 
g. Olga sagðist afar ánægð með breytingar sem gerðar voru á stjórnunarteymi skólans, enda mun það koma til móts við athugasemdir í ytra mati. 

h. Búið er að uppfæra mætingarreglur og birta nýjar skólareglur.

i. Rætt um  innleiðingu nýrrar aðalnámskrár en skólaárið 2015-2016 verður notað til að slípa til nýja námskrá skólans.
 
í. Heimavistarmál. Það verður mikil breyting á  þeim málaflokki  í lok þessa skólaárs  þar sem  draga  þarf  úr  starfseminni,  enda  er  heimavistin  þungur  baggi  á  skólanum fjárhagslega.  Til  framtíðar  verður  heimavist  FSu  einungis  ætluð  þeim  sem  þurfa  á húsnæði  að  halda  vegna  mikillar  fjarlægðar  við  heimili.  Foreldraráð  styður  þetta sjónarmið stjórnar skólans.

3. Af fundi Skólanefndar FSu 21. september 2015.

Björn  Harðarson  sat  fund  skólanefndar  fyrir  hönd  foreldraráðs  þriðjudaginn  22.  sept.Farið yfir það helsta sem kom fram á fundinum.

a.  Rætt um gagnrýni skólameistara á aðferðarfræði  við gerð skýrslu vegna  ytra mats. Skólameistari telur að of lítið tillit hafi verið til  athugasemda hennar áður en skýrslan  var gerð opinber.
 
b. Rætt um samstarf við hin ýmsu fyrirtæki á skólasvæði FSu. Mörg fyrirtæki hafi sýnt mikla velvild, m.a. styrkt skólann með gjöfum sem hafa komið sér vel í námi nemenda. 

c. Fjármál skólans rædd stuttlega en hér  kom fram að 90% af rekstrarfé skólans  fer í að greiða laun.
 
d. 25% staða sálfræðings frá síðasta skólaári er ekki lengur til staðar. Mikil ánægja var með  þessa  þjónustu  enda  voru  rúmlega  60  nemendur  sem  leituðu  til  sálfræðingsins. Olga sagði að öll þessi mál hafi verið bráðatilvik. Því er brýnt að skólinn geti áfram haldið úti sálfræðiþjónustu sem þessari. Það sé í skoðun í samstarfi við m.a. HSu.  Rætt um samstarf  við  Skólaþjónustu  Árborgar  –  það  hefur  verið  til  skoðunar  en  flækjustigið  er nokkuð  þar  sem  það  slitnaði  upp  úr  samningarferlinu  í  kjölfar  lokun  Skólaskrifstofu Suðurlands. Við það dró menntamálaráðuneytið til baka vilyrði fyrir fjárstuðningi.
 
e.  Rætt  um  dræma  aðsókn  í  smíða-  og  rafdeild.  Mögulega  mun  betri  aðstaða  með tilkomu  nýs  verknámshúss  breyta  því.  Og  vonandi  tekst  samhliða  að  höfða  betur  til kvenkyns nemenda um að sækja um í verknámi  –  en á það er m.a. bent í skýrslu ytra mats. Von  er  á stuðningi af hálfu ráðuneytis en í Hvítbók er talað um að auka veg og 
virðingu verknáms.  Olga segir það þó áhyggjuefni ef atvinnulífið ætli ekki að meta nám af starfsnámsbraut/verklegum námsbrautum eins og hinni nýju ferða- og matvælabraut.

f.  Samstarf  FSu  og  grunnskóla  á  Suðurlandi.  Stefnt  er  á,  þegar  um  hægist,  að  halda starfsdag  með  kennurum  í  unglingadeildum  grunnskóla  eins  og  gert  var  fyrir  tveimur árum, enda samtal á milli skólastiga afar brýnt.
 
g.  Vangaveltur  um  aðalfund  foreldraráðs.  Foreldraráð  mun  funda  fljótlega  vegna undirbúnings.

3. Önnur mál.

  • Engin önnur mál að þessu sinni.
Formaður boðar til næsta fundar með tölvupósti þegar nær dregur.

Fundi slitið kl. 17.50
Fundargerð ritaði Þorvaldur H. Gunnarsson.