Skýrsla stjórnar 2010-2011

Skýrsla stjórnar 2010-2011
 
Stjórn Foreldrafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands fundaði fimm sinnum á síðastliðnum vetri og hitti hluti stjórnarmanna skólastjórnendur tvisvar á því tímabili á fundi.
 
Ýmislegt hefur verið rætt og íhugað. En það sem stjórn foreldrafélagins var mjög umhugað um var að koma mötuneytismálum í betra horf. Margt hefur lagast þar á síðasta ári, ekki síst að komið var upp örbylgjuofnum og mínútugrilli í aðstöðu nemenda. Skemmst frá því að segja að formaður fór á fund verslunarstjóra Byko á Selfossi í byrjun árs og hann ákvað að styrkja foreldrafélagið um 2 ofna og eitt grill. 
Skólameistari tók við gjöfinni sem hefur komið sér afar vel og ber að þakka Byko fyrir þessa velvild í garð skólans og nemenda hans.

Það dylst engum, að víða er fjárhagur á heimilum nú þrengri en áður og því hafa margir nemendur tekið þann kost að hafa nesti að heiman með sér í skólann. Oft er það eitthvað sem gott er að hita og þá er til mikilla bóta að þurfa ekki að bíða í langri röð í mötuneytinu til að fá matinn hitaðan fyrir sig, heldur geta gert það sjálfur að kostnaðarlausu. Þessi tilhögun hlýtur líka létta á starfsfólki mötuneytis á mestu annatímum dagsins. 

Á haustdögum kynntu Agnes Ósk Snorradóttir og Þórunn Jóna Hauksdóttir eineltisáætlun skólans með yfirmarkmiðinu : ,,Skólinn í okkar höndum“. Stjórn félagsins fagnar því mjög að FSU skuli vera fyrsti framhaldsskóli landsins sem tekur upp Olweus-áætlun gegn einelti.

Eins og aðrir sem koma að skólastarfi á Íslandi hefur stjórn foreldrafélagsins haft talsverðar áhyggjur af því að niðurskurður á öllum sviðum samfélagsins kæmi til með að bitna skólastarfinu í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Raunin hefur sem betur fer verið sú að starfið er afskaplega kraftmikið og gott, nú sem endranær og mikið hefur verið unnið í innra starfi skólans. Allir helstu viðburðir hafa einnig verið á sínum stað og metnaður og jákvæðni ráðið ríkjum. Það mátti glöggt merkja á glæsilegri afmælishátíð skólans sem haldin var nú í september í tilfefni af 30 ára afmæli skólans. 
 
Að lokum vill stjórnin hvetja foreldra fjölbrautaskólanemenda til að taka virkan þátt í starfi Foreldrafélagsins og stuðla þannig að bættri líðan, betri aðstöðu og þar með betri námsarangri barna sinna. Því fleir raddir sem heyrast því meiri líkur er á að þær sé hlustað. Sjálf hef ég verið með frá stofnun félagsins og tel það mikil forréttindi. Það hefur gefið mér innsýn í innra starf skólans, ég hef fengið tækifæri til að vinna með skólanum að mikilvægum málefnum og vonandi komið einhverju gagnlegu til leiðar. Með þeim orðum vil ég fyrir hönd stjórnar þakka samstarfið á liðnu starfsári og óska Fjölbrautaskólanum, foreldrafélaginu og nýrri stjórn þess alls hins besta í framtíðinni.
 
DM