Sérnámsbraut - starfsbraut

 

Nám á sérnámsbraut er sniðið að þörfum nemenda sem notið hafa verulegrar sérkennslu í grunnskóla og þurfa sveigjanlegt, einstaklingsmiðað nám. Nemendur þurfa að hafa viðurkennd greiningargögn til að komast inn á brautina. Námið er bæði einstaklings- og hópmiðað þar sem horft er til styrkleika og áhugasviðs nemenda. Áfangar eru einingabærir á fyrsta hæfniþrepi og áhersla er lögð á fjölbreytt nám; bóklegt, verklegt og tengt atvinnulífinu. Nemendur hafa umsjónarkennara sem aðstoða þá við námið og miðla upplýsingum um skólastarfið. Áhersla er lögð á að styrkja náms,- starfs- og félagslega stöðu nemenda og efla samskiptahæfni og sjálfstraust. Námið undirbýr nemendur undir sjálfstætt líf, búsetu, starfsþátttöku eða áframhaldandi nám. Nám á starfsbraut er að hámarki fjögur ár en nemendur geta útskrifast eftir þrjú ár.

Brautinni er skipt í kjarna og val. Í kjarna eru skylduáfangar brautarinnar, sjá brautarlýsingu hér að neðan. Dæmi um valgreinar eru málmsmíði, trésmíði, rafvirkjun, fatagerð, hárgreiðsla, hesta- og reiðmennska, myndmennt, matreiðsla, leikræn tjáning, tónlist, skák, tölvufræði, þýska, danska og ökunám. Ríkulegt námsval á að tryggja að allir nemendur finni eitthvað við sitt hæfi.

Námsmat er einstaklingsmiðað, svo sem leiðsagnarmat, jafningjamat, sjálfsmat, lokapróf, verkefnaskil, ástundun og mæting. Regluleg endurgjöf er frá kennara á vinnuframlag nemenda og verkefnaskil.

 

 

Síðast uppfært 20. janúar 2023