NEMENDUR FSu SÆKJA GULLKISTUNA HEIM

Vettvangsferðir eru mikilvægar í öflugu skólastarfi. Nauðsynlegt er að ýta nemendum út úr kennslustofunni með reglubundnum hætti og bjóða þeim að skoða atvinnulíf og listalíf sem býr utan skólastofunnar. Hitta fólk og fyrirtæki, fara í leikhús, hnusa af nýsköpun og náttúru.

Föstudagsmorguninn 17. september kom hópur nemenda úr Fjölbrautaskóla Suðurlands í Gullkistuna á Laugarvatni sem er dvalarstaður fyrir skapandi fólk alls staðar að úr heiminum. En eitt af markmiðum GULLKISTUNNAR er að miðla þeirri sköpun og menntun sem þar býr út í samfélagið. Þar nutu nemendur FSu leiðsagnar fjögurra rithöfunda (og háskólakennara) í skapandi skrifum. Dveljandi leiðbeinendur á Gullkistunni voru Robert Fanning, Liza St. James, Jennifer Bartlett og Remy Pincumbe, öll menntuð í skapandi skrifum, háskólakennarar í bókmenntum og rithöfundar. Kunnátta þeirra í kennslu var algjörlega á pari við skáldskaparlist þeirra og ekki stóðu nemendur FSu sig síður, því áhuginn á viðfangsefninu var gagnkvæmur og kraftmikill.

Gullkistan er eini dvalarstaðurinn af þessu tagi á öllu Suðurlandi en finna má sambærilega staði víða annars staðar á Íslandi.

jöz.