Lög foreldraráðs

Starfsreglur og lög foreldraráðs Fjölbrautaskóla Suðurlands 
 
 1. grein
 
Félagið heitir Foreldraráð Fjölbrautaskóla Suðurlands. Aðsetur þess er í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. 

Tilgangur, markmið og leiðir:
Tilgangur félagsins er að styðja við og stuðla að auknum gæðum skólastarfsins og leitast við að bæta jafnframt almenn skilyrði og aðstæður einstakra nemenda til menntunar og almenns 
þroska í samstarfi við skólann.

Markmiðum sínum hyggst félagið ná með því meðal annars að:
  • Stuðla að aukinni vitund foreldra/forráðamanna um forsjárskyldur sínar og þekkingu þeirra á réttindum og skyldum sínum og barna þeirra.
  • Vera samráðs- og samstarfsvettvangur foreldra/forráðamanna sem starfar í fullu samráði við stjórn skólans og nemendaráð.
  • Auka sýnileika og nánd foreldra/forráðamanna sem veiti yfirvöldum, skólastjórnendum, kennurum og nemendum stuðning í skólastarfinu.
  • Koma á, efla og tryggja gott samstarf foreldra/forráðamanna og starfsfólks skólans.
  • Hvetja til aukins stuðning og hvatningar foreldra/forráðamanna við börn sín og nám þeirra.
  • Vera bakhjarl skólans og auka áhrif foreldra/forráðamanna sem hagsmunahóps um bættan hag og stöðu skólans.
  • Standa vörð um réttindi nemenda til menntunar og farsæls þroska.
 2. grein
 
Hlutverk foreldrafélags er að styðja við skólastarfið, huga að hagsmunamálum nemenda og í samstarfi við skólann efla samstarf foreldra og forráðamanna ólögráða nemenda við skólann, sbr. 50. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92 frá 12.06. 2008.
 
 3. grein

Félagsmenn eru sjálfkrafa allir foreldrar og aðrir forráðamenn ólögráða nemenda skólans. Foreldrar annarra nemenda skólans geta orðið félagsmenn ef þeir óska.

4. grein

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Hann skal halda árlega á tímabilinu 15. sept. til 31. okt. Til fundarins skal boðað bréflega og/eða með tölvupósti eða opinberri auglýsingu með a.m.k. 7 daga fyrirvara með dagskrá. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum í atkvæðagreiðslu.

Dagskrá aðalfundar skal vera:
 a) Kosning fundarstjóra og fundarritara
 b) Skýrsla stjórnar um störf hennar og starfsemi félagsins
 c) Umræður um skýrslu stjórnar 
 d) Breytingar á lögum
 e) Kosning í stjórn félagsins
 f) Önnur mál
 
Stjórn:
Á aðalfundi skal kjósa fimm manna stjórn og tvo til vara. Formaður skal kosinn beinni kosningu en aðrir stjórnarmenn skipti með sér verkum. Varamenn fyrra árs færast upp í aðalstjórn, sé þess kostur , og kosnir nýir varamenn. Þannig er komið í veg fyrir algera endurnýjun stjórnar. 
Stjórn félagsins tilnefnir einn áheyrnarfulltrúa í skólanefnd.
Leitast skal við að skipa stjórnina fólki úr sem flestum þeirra sveitarfélaga sem standa að skólanum. Stjórn félagsins skal fylgja samþykktum aðalfundar. Hún skal halda gerðabók þar sem gerð er grein fyrir starfsemi félagsins og stjórnarfundum. Einnig skal birta fundargerðir á vef skólans.
 
 5. grein
 
Stjórn félagsins er frjálst að taka við styrkjum og beita sér fyrir fjáröflun í þágu félagsins en 
hún getur ekki innheimt félagsgjöld.

6. grein

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi félagsins. Tillögur að breytingum þurfa að berast stjórn félagsins ekki síðar en 14 dögum fyrir boðaðan aðalfund. Tillögur til breytinga á lögum þessum skal kynna um leið og boðað er til aðalfundar.

Síðast uppfært 14. október 2014