MIKILVÆGT SAMRÁÐ SKÓLASTIGA

Árlegur samráðsfundur kennara FSu með grunnskólakennurum á Suðurlandi var haldinn í Odda, aðalbyggingu FSu þann 1. nóvember. Í byrjun fundarins ávarpaði skólameistari Olga Lísa Garðarsdóttir þátttakendur og lagði áherslu á snertipunktinn milli skólastiganna og mikilvægi þess að kennarar ræddu sín á milli og væru upplýstir um megináherslur í námi nemenda á hvoru skólastigi. Samráðið snýr að kjarnagreinunum fjórum, dönsku, ensku, íslensku og stærðfræði. Bæði var góðmennt og fjölmennt á fundinum enda er umráðasvæði FSu eitt víðfeðmasta skólasvæði á Íslandi með Þorlákshöfn í vestri og Kirkjubæjarklaustur í austri.

Eftir inngang skólameistara fóru kennarar í skólastofur til skrafs og ráðagerða. Þar er rætt um undirbúning og kröfur, lesefni og aðferðir, bækur til lestrar og greiningar, breytingar og framþróun í námi nemenda, hlutverk foreldra og kennara, hvað gangi vel og hvað má bæta, gagnvirkt samráð kennara, mikilvægi sköpunar í kennslu, reglur um símanotkun, þekkingu og hæfni, færni og leikni nemanda á mismunandi þrepum og stigum í náminu og síðast en ekki síst framtíðina.

Það er bæði faglegt og gleðilegt að kennarar þessara tveggja skólastiga fá tíma og ráðrúm til samræðunnar sem er hinn besti vettvangur til að bæta skólastarfið og horfa til framtíðar.

jöz.