LISTMÁLARINN ÁSGRÍMUR Í FSu

Síðastliðið vor setti Byggðasafn Árnesinga upp sýningu í Húsinu á Eyrarbakka sem nefnd var Drengurinn, fjöllin og Húsið þar sem fjallað er um æsku og unglingsár hins merka myndlistarmanns Ásgríms Jónssonar (1876 – 1958). Nú hefur þessi sama sýning verið sett upp í björtu og fallegu rými fyrir framan myndlistarstofu FSu á þriðju hæð skólans. Fullyrða má að um einstakt framtak og samvinnuverkefni sé að ræða á milli safns og skóla.

Ásgrímur Jónsson var fæddur og uppalinn í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa og höfðu æskustöðvarnar djúp áhrif á listsköpun hans. Hinn víðfeðmi fjallahringur, ljós og skuggar árstíðanna, útilegumannasögur á vökunni og hljóðið í briminu eru aðeins örfá atriði sem fylgdu honum ævina á enda og voru brunnur endurminninga sem hann gat sífellt ausið úr. Upp úr fermingu var Ásgrímur vikapiltur á þriðja ár í Húsinu á Eyrarbakka sem nú hýsir Byggðasafn Árnesinga. Fólkið í Húsinu sá þann efnivið sem í piltinum var og þar eignaðist hann sína fyrstu vatnsliti. Vegna veru sinnar í Húsinu eru líka til örfáar ljósmyndir af honum frá þessum tíma. Þegar Ásgrímur yfirgaf Húsið fór hann þaðan fullviss um köllun sína í lífinu.

Sýningin er sett upp þannig að skoðandi fái á tilfinninguna að hann sé staddur á vinnustofu listamanns. Hún byggir á endurminningum Ásgríms Myndir og minningar sem Tómas Guðmundsson skráði og er tilvalin fyrir kennara allra námsgreina en ekki síst í listum og menningu, sögu og íslensku. Áhugasamir geta nálgast hugmyndir og hugleiðingar um nálgun sýningarinnar í kennslu hjá Ágústu Ragnarsdóttur fagstjóra í skapandi greinum í FSu.

ár / jöz