Höfuðlaus her í óvinabúðum

Það voru niðurlútir Flóamenn, tapsárir í meira lagi, er snéru heim úr herför til Bláfjalla sunnudaginn 29. maí sl. Foringinn, Árni Sverrir Erlingsson, gat ekki fylgt sínu liði og þrátt fyrir beint símasamband dugði það ekki til að þjappa liðinu til sigurs. Nei, það er ljóst að Tapsárir Flóamenn, bridssveit starfsmanna í FSu, komu ekki sérlega vel undan brautskráningunni þann 27. maí. Hyski Höskuldar reyndist ofjarl þeirra og sigraði í fyrri einvígisleik vetrarins með 76 stigum gegn 57. Nú er bara að vona að foringinn nái mulningsvélinni aftur í gang fyrir seinni leikinn sem áætlaður er á Skeiðunum á hausti komanda, þann 17. september, en ljóst er að róðurinn verður þungur. Það varð þó Flóamönnum til hugarhægðar að matarveisla kvöldsins tókst með eindæmum vel. Borin var fram sunnlensk keila, blálanga og skötuselur af Selvogsbanka, Ólafsrauður úr Ölfusinu, harðfiskur frá Stokkseyri og smjör framleitt í Mjólkurbúi Flóamanna. Var gerður góður rómur að veisluföngum og þakka Flóamenn Lundanum sérstaklega fyrir eldamennskuna. Á myndinni hér að ofan má sjá nokkra af fyrverandi og núverandi meðlimum ofangreindra sveita ásamt hjálparkokkum.