Fundur 2014 19.03

Fundur í foreldraráði FSu miðvikudaginn 19.mars 2014
 
Mættir: Þorvaldur, Elín, Lúðvík, Kristín og Sigþrúður
 
1. Rætt um verkfall framhaldsskólakennara sem nú er skollið á. Ákveðið að semja ályktun og senda til foreldra og í héraðsblöðin. Þar komi fram áhyggjur af ástandinu, hvatning til nemenda að láta ekki deigan síga og sinna vinnu sinni af fremsta megni. Einnig verði foreldrar hvattir til að vera vakandi yfir líðan barna sinna og styðja þau við námið. Einnig komi fram ábending um þá möguleika sem í boði eru í skólanum þrátt fyrir verkfall.
Fundarmenn voru sammála um að hlutverk foreldraráðs væri fyrst og fremst að styðja við foreldra og nemendur – en ekki taka afstöðu með öðrum hvorum samningsaðila. Formaður tekur að sér að semja ályktun og bera hana undir ráðið rafrænt.
 
2. Ákveðið að bera undir skólameistara á hvaða hátt foreldraráð getur stutt við nemendur ef verkfall dregst á langinn. Geta sveitarfélögin t.d. á einhvern hátt mætt nemendum með aðstöðu .
 
3. Rætt um ballmál. Ástand á skólaböllum víðs vegar um landið hafa verið í brennidepli undanfarið og ekki hefur gengið alveg nógu vel í FSu á böllum vetrarins m.t.t. áfengisneyslu og annarra vandamála.

Foreldraráð harmar það en fagnar aftur á móti því að betur gekk á síðasta balli en árshátíðinni í febrúar. Einnig er jákvætt að þrír foreldrar fengust í nokkurs konar foreldravakt við upphaf balls. Þar verður vonandi framhald á og vonandi tekst að víkka það starf út í samvinnu við foreldra. Foreldraráð hefur áhuga á því að hitta stjórn Nemendafélagsins á spjallfundi, m.a. vegna aðkomu foreldra að skemmtunum skólans.
 
4. Könnun meðal foreldra. Félagsfræðinemendur skólans tóku ásamt kennara sínum að sér að gera rafræna könnun meðal foreldra, fyrir foreldraráð um hlutverk ráðsins og fleira er viðkemur foreldrastarfi í framhaldsskóla. Könnunin hefur verið send foreldrum en ekki náðist að ljúka úrvinnslu áður en verkfall skall á.
 
5. Þorvaldur talaði um að hann hefði heyrt mjög mikið um gott foreldrastarf í Versló og að gaman væri að kynna sér það nánar. Fundarmenn sammmála því.6. Rætt um mætingaskráningar þegar krakkar hafa fengið leyfi í tímum  vegna góðra verkefnaskila – en fá svo jafnvel fjarvist skráða. Ákveðið að ræða þetta við skólameistara á næsta fundi. Einnig rætt um þegar krakkar af hestabraut koma neðan úr Votmúla í tíma í FSu þá ná þau tæplega á þeim tíma sem ætlaður er og fá því seint. Ekki nægur tími milli kennslustunda þar.
 
7. Rætt um framtíð verknáms og þá óvissu sem ríkir varðandi nýbyggingu Hamars. Ákveðið að ræða einnig við skólameistara um þau mál á næsta fundi. Einnig hvaða hugmyndir eru í gangi varðandi aukningu verknáms, s.s. í ferðamennsku, matvælaiðnaði og umhverfismennt svo dæmi sé tekið. Hugsanlegt að halda málþing um þessi mál.

Fleira ekki rætt og fundi slitið.

Sigþrúður Harðardóttir