Fundur 2015 17.03

Fundur Foreldraráðs FSu

17. mars 2015

Mættir: Elín, Kristín, Þorvaldur og Olga skólameistari. Ásdís boðaði forföll.

Fundur settur kl. 16.50 á kaffistofu starfsmanna í FSu.

Dagskrá:

  1. Fyrirspurnir til skólameistara.
  2. Starfamessa 19. mars.
  3. Önnur mál.

1. Fyrirspurnir til skólameistara.

  1. Posamál í mötuneytinu (sbr. umfjöllun á fundi foreldraráðs 5. mars sl.).

Olga segir þekkja vel til málsins og það hafi dregist óþarflega mikið að fá nýja posa, sem aftur hafi skapað vandræði fyrir nemendur. Hún sagðist myndi ganga strax í málið.

  1. Vangaveltur um óveðursdag í viku 11 þegar svo virtist sem nemendur með lögheimili utan póstnúmersins 800 ættu að fara heim en kennsla héldi áfram eftir hádegi hjá nemendum á Selfossi. Spurt nánar út í ákvörðunina, hvort hún kæmi ekki niður á nemendum og hvort ekki væri nauðsyn á samræmdri upplýsingastefnu af hálfu skólans við aðstæður sem þessar?  

Olga sagði að þetta hafi verið valkvætt fyrir nemendur og þeir sem völdu að fara heim hefðu átt að geta fylgst með upplýsingum frá kennurum á Moodle, þannig að þeir misstu ekki úr námi. Olga sagði ennfremur að ákvörðunin hafi verið erfið. Í fyrsta lagi hafi verið vont og erfitt að fella niður kennslu meira en orðið er og í öðru lagi hafi þurft að samræma ákvörðunina við aðstæður hjá strætó. Nú um mundir snýst þetta orðið um list hins mögulega og ómögulega í veðuraðstæðum sem hafa dag eftir dag reynst erfiðar. Verið sé að gera það besta í stöðunni hverju sinni og óvíst sé hvort hægt sé að hafa eina samræmda stefnu þegar svo stendur á.

  1. Strætókortin. Nú hefur orðið breyting á innheimtu greiðslu fyrir strætókortin, sem aftur hefur komið illa fyrir sumar fjölskyldur.

Olga sagðist skilja þetta en útskýrir að fyrir breytingar hafi nemendur borgað staðfestingargjald í upphafi annar, sem var einungis lítill hlut kostnaðarins. FSu hafi svo lagt út fyrir afganginum með því fororði að dreifbýlisstyrkur nemenda stæði að lokum undir framlagi FSu (í lok annar). Í ljósi nemendafækkunar, og að margir nemendur klári ekki lágmarksfjölda eininga sem tryggir dreifbýlisstyrk, þá geti skólinn ekki staðið undir hinu tímabundna framlagi lengur. Steininn hafi tekið úr þegar Lánasjóður íslenskra námsmanna (sem greiða út dreifbýlisstyrkinn) fór að bjóða nemendum upp á að það væri valkvætt að styrkurinn færi beint til þeirra sjálfra eða til FSu (upp í strætókortin). Meira að segja hafi skólinn orðið fyrir umtalsverðu tapi í fyrra vegna þessa fyrirkomulags vegna mistaka í framkvæmd hjá LÍN.

Hér sköpuðust umræður um hvort FSu ætti yfirleitt að koma að þessari þjónustu sem milliliður. Olga segir að þó þetta fyrirkomulag sé íþyngjandi fyrir fjárhag skólans þá sé það mikilvægt fyrir samband hans við strætó varðandi skipulag ferða o.fl. Fulltrúar foreldraráðs bentu þá á móti hvort SASS, sem er hagsmunaaðili í málinu, og hefur skyldum að gegna gagnvart nemendum hvað varðar lágmarksþjónustu, þyrfti ekki að koma betur að borðinu? Það megi ennfremur bæta við að það sé undarlegt að nemendi sem býr á Flúðum þurfi að borga 5 miða aðra leiðina til og frá skóla á meðan nemandi sem býr í Hveragerði borgi einungis 1 miða. Augljóslega sé fjölskyldum mismunað eftir gjaldsvæðum strætó og þar með búsetu.

  1. Vangaveltur um stöðu námsgreina þar sem mikið er um fall nemenda.

Rætt almennt. Líklega verða breytingar í umbótaátt með nýrri námskrá.

  1. Dansleikjamál nemenda (sbr. umfjöllun á fundi foreldraráðs 5. mars sl.).

Olga segir afstöðu stjórnenda skólans vera kunnar hvað þau mál varðar. Hún sé í samræmi við forvarnastefnu framhaldsskólanna á landsvísu og þar fer stefnan ekki í þá átt að lengja tíma dansleikja, hvað þá að fjölga þeim. Það megi ennfremur spyrja sig hvort það sé hlutverk skólans að hafa aðkomu að dansleikjahaldi yfirleitt, sem sé utan lögssögu stofnunarinnar í tíma og rúmi? Töluverður kostnaður falli á skólann í formi gæslu og aðkoma nemendafélagsins sé því miður alltof óljós þrátt fyrir að allir séu að gera sitt besta.

Halda þarf áfram að ræða þetta mál og finna því betri veg til framtíðar (t.d. í skólakerfinu Braga). Fulltrúar foreldrafélagsins ætla að skoða betur sína aðkomu, m.a. með því að fá að koma að endurskoðun laga nemendafélagsins.

2. Starfamessa 19. mars.

Olga sagði frá. Starfamessa er samstarfsverkefni SASS og Atorku en henni er ætlað að svara niðurstöðum könnunar sem var gerð nýlega á vegum SASS. Þar kemur fram að nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla, nemendur á fyrsta ári í framhaldsskólum á Suðurlandi, og foreldrar þeirra hafa ekki mikla innsýn í starfsemi sunnlenskra fyrirtækja. Markmiðið sé að bæta úr því með því að sýna hvað þessi fyrirtæki hafa upp á að bjóða og draga fram sérkenni þeirra. FSu býður fram húsnæði sitt fimmtudaginn 19. mars til sýningarinnar og von er á um 1100 9. og 10. bekkingnum hvaðanæva úr sunnlenskum grunnskólum í heimsókn. Að auki verða flestir nemendur FSu á sýningunni, ríflega 800 talsins.

3. Önnur mál.

  • Engin önnur mál að þessu sinni.

Formaður boðar til næsta fundar með tölvupósti þegar nær dregur.

Fundi slitið kl. 17.55

Fundargerð ritaði Þorvaldur H. Gunnarsson.