Leiklistarnemendur FSu sýna tvö leikverk í Þjóðleik

Nemendur í leiklistaráföngum í FSu sýna tvö verk á leiklistarhátíðinni Þjóðleikur í Hveragerði helgina 21.-23. apríl.

Þjóðleikur er leiklistarhátíð ungs fólks sem haldin er annað hvert ár á landsbyggðinni. Verkefnið er haldið að frumkvæði Þjóðleikhússins í góðu samstarfi við menningarráð, skóla, leikfélög og fjölda annarra aðila. Viðurkennd leikskáld eru fengin til að skrifa krefjandi og spennandi verk fyrir 13-20 ára leikara sem svo eru sett upp í hinum ýmsu byggðum landsins. Í hverjum landshluta fer fram lokahátíð að vori þar sem allar sýningarnar eru sýndar.

Verkin sem nemendur í FSu leika eru  Morð eftir Ævar Þór Benediktsson og Loddararnir eftir Snæbjörn Brynjarsson. Hóparnir sýna tvisvar sinnum yfir helgina. Nánari dagskrá má sjá á fésbókarsíðu skólans.